11.4.09

Var 30 milljóna króna styrkur til Sjálfstæðisflokks til þess að liðka fyrir sölu á Hitaveitu Suðurnesja til FL Group?

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum fékk Sjálfstæðisflokkurinn 30 milljón króna styrk frá fjárglæframönnunum Hannesi Smárasyni og Jóni Ásgeiri í árslok 2006.

Nokkrum vikum seinna, í skjóli kosninga, seldi þáverandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks þeim sömu mönnum Hannesi Smárasyni og Jóni Ásgeiri 32% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, stærstu orkuauðlind Íslendinga. Lyktaði allt það mál af stórfelldri spillingu.

Stuttu eftir að ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við voru samin lög um að almenningur þyrfti að eiga meirihluta í orkuauðlindum landsmanna en af einhverjum ástæðum ákvað þáverandi og reyndar núverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, að undanskilja Hitaveitu Suðurnesja algerlega frá þeim lögum.

Þar á eftir reyndi borgarstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að koma 16% hlut borgarinnar í hitaveitunni til þessara sömu manna í gegnum skúffufyrirtækið REI.

Voru þessar 30 milljónir sem vinirnir Hannes Smárason og Jón Ásgeir gáfu Sjálfstæðisflokknum hugsanlega til þess eins að tryggja þeim yfirráð yfir stærstu orkuauðlind Íslendinga (sjá hér)?

Fengu fleiri flokkar slíkar fyrirgreiðslur?

Hvert er hlutverk samfylkingarinnar í einkavæðingu orkugeirans, af hverju vildi Össur svona ólmur undanskilja hitaveituna frá lögum sem kveða á um meirihlutaeign almennings í orkuauðlindum þjóðarinnar og af hverju er framkvæmdarstjóri Samfylkingarinnar kominn í felur?

Sennilega sjáum við aðeins topp ísjakans og sennilega fáum við aldrei að vita hvað raunverulega lá bakvið þessari 30 milljón króna mútugreiðslu til Sjálfstæðisflokksins.

Það er þó víst að þeir landráðamenn sem tóku þátt í þessum gjörningi sviku þjóð sína.

No comments:

Post a Comment